Skilmálar uppfærðir 26.3.2019

Fyrir aðgang kaupenda að Skúffunni

1.      Almennt um Skúffuna

Skúffan er nánar skilgreint í grein 3, er miðlægt kerfi til flutnings á rafrænum skeytum sem send eru af þeim sem kaupa aðgang að kerfinu, hér eftir vísað til sem kaupendur.

2.      Skilgreiningar

Eftirtalin hugtök hafa svofellda merkingu þar sem þau koma í þessum skilmálum

  •        Rafrænt skeyti er XML-skeyti sem svarar annað hvort til einhverra af þeim  skeytalýsingum úr NES-afmörkun á skeytastaðlinum, sem er lýst í „ICEPRO Rafræn innkaup með XML – Handbók um viðskiptaferla, útg. 1.1, ICEPRO desember 2007.

Seljanda er áskilinn réttur til að ákveða hvaða skeytalýsingar eru gjaldgengar í kerfinu á hverjum tíma.

  •     Seljandi er Advania hf., kt. 590269-7199, Guðrúnartúni 10, 105 Reykjavík.  
  •        Skeytamiðlun er heild þess vélbúnaðar, netbúnaðar, gagnatenginga, gagnagrunna, stýrikerfa vélbúnaðar og hugbúnaðar sem seljandi hýsir miðlægt og veitir aðgengi að samkvæmt skilmálum þessum um Skeytamiðlun.:

3.      Aðgangur kaupanda að Skeytamiðlun Advania

3.1.        Sending rafrænna skeyta

Kaupandi getur sent hverjum þeim öðrum skeyti sem eru kaupendur að þjónustu Skeytamiðlunar. Kaupandi ber ávallt ábyrgð gagnvart seljanda á að skeyti sem hann sendir uppfylli þau skilyrði sem gerð eru hverju sinni til skeyta af viðkomandi umgjörð. Skeyti sem ekki uppfylla þær kröfur kunna t.d. að glatast eða verða send öðrum kaupendum en þeim sem til stóð að senda þau og ber sendandi einn alfarið alla ábyrgð á því.

Seljanda er heimilt að hafa eftirlit með rafrænum skeytum, t.d. til að tryggja rétt form þeirra og leita leiða til að koma í veg fyrir að vandkvæði leiði af skeytum sem ekki eru rétt formuð. Ef sending skeyta fer ekki fram með eðlilegum hætti að mati seljanda hefur hann heimild til að takmarka eða loka fyrir aðgang kaupanda að kerfinu.

Viðmiðunarstærð hvers þeirra skeyta sem tekið er við í Skeytamiðlun er 50 kB. Sjá verðskrá fyrir viðbótargjald.

3.3.      Tengingar

Kaupandi hefur eingöngu aðgang að Skeytamiðlun í gegnum www.skuffan.is með því að nota Windows service plug-in, skrifaður af seljanda, sem hann veitir kaupanda afnot af án sérstaks endurgjalds.

Á vefsíðu Skeytamiðlunar Advania má m.a. finna almennar upplýsingar og tilkynningar til kaupenda og starfsmanna þeirra, svo sem um þær skeytaumgjarðir sem í boði eru hverju sinni.

Kaupandi skal tryggja og ábyrgjast að óviðkomandi aðilar komist ekki í útstöð sem hefur virkt aðgengi að Skeytamiðlun. Allar færslur sem koma auðkenndar kaupanda eru á ábyrgð hans.

 

4.       Önnur þjónusta

4.1.        Notendaþjónusta

Seljandi veitir kaupanda notendaþjónustu með tvennum hætti, símleiðis og um tölvupóst, í samræmi við þjónustuskilgreiningar sem er að finna á www.skuffan.is.

4.2.        Lagfæringar, breytingar

Komi upp atvik sem kaupandi telur að sé galli í virkni Skeytamiðlunar skal hann án ástæðulauss dráttar tilkynna seljanda í tölvupósti um atvikið. Ef seljandi fellst á að umrætt atvik kalli á lagfæringar á kerfinu mun hann framkvæma þær.

Sama skal gert ef kaupandi óskar breytinga. Kaupandi getur óskað eftir breytingum og viðbótum á Skeytamiðlun með því að fylla út þar til gert eyðublað með ósk um viðbót eða breytingu. Seljandi upplýsir kaupanda skriflega eða í tölvupósti um hvort verkbeiðni er hafnað eða hún samþykkt, að jafnaði innan 4 vikna frá því að seljandi hefur móttekið hana. Ef seljandi metur það svo að verkbeiðni frá kaupanda um breytingar séu sérþarfir fyrir kaupanda getur seljandi samþykkt verkbeiðnina með þeim fyrirvara að kaupandi samþykki að greiða sérstaklega þann kostnað sem leiðir af viðkomandi breytingu.

Framangreind eyðublöð er að finna á vefsíðu Skeytamiðlunar.

 

5.      Öryggi og uppitími

Seljandi skal uppfylla þær kröfur sem gerðar eru af FUT-tækninefnd um flutning rafrænna skeyta og í gildi eru á hverjum tíma.

Seljandi skuldbindur sig til að tryggja að öðru leyti eftir fremsta megni öryggi þeirra gagna sem vistuð eru í miðlægum gagnagrunni Skeytamiðlunar hverju sinni, þ.e. leynd þeirra, heilleika og aðgengi að þeim. Seljandi ber ekki ábyrgð á tjóni sem kann að hljótast af saknæmri háttsemi þriðja aðila, svo sem vegna aðgerða slíks aðila til að öðlast og nýta óheimilan aðgang að kerfinu.

Seljandi stefnir að því að á sérhverju 365 daga tímabili verði uppitími og virkni Skeytamiðlunar sem næst 99%.

Skeytamiðlun er ætluð til flutnings á rafrænum skeytum, ekki til geymslu þeirra. Hámarks vörslutími rafræns skeytis í Skeytamiðlun eru 30 dagar enda er gert ráð fyrir að móttakandi skeytisins hafi ávallt sótt viðkomandi skeyti innan þess tíma. Að liðnum þeim tíma er viðkomandi skeyti eytt, hvort sem það hefur verið sótt af móttakanda eður ei.

 

6.      Þróun, viðhald og uppfærslur á Skeytamiðlun Advania

Viðhald, þróun og uppfærslur Skeytamiðlunar eru alfarið á forræði seljanda, þar á meðal ákvörðunarvald um breytingar og nýjungar í Skeytamiðlun, hvort sem þær eru að frumkvæði seljanda sjálfs eða annarra.

Seljandi ber ekki ábyrgð á því ef þróun Skeytamiðlunar hefur þær afleiðingar að nauðsynlegt verður fyrir kaupanda að framkvæma breytingar á því sem hann nýtir til samskipta við Skeytamiðlun, svo sem vélbúnað eða hugbúnað, þar á meðal frá þriðja aðila, né tekur seljandi á neinn hátt þátt í kostnaði sem mögulega hlýst af því. Seljandi skal hins vegar upplýsa kaupanda með minnst sex mánaða fyrirvara um meiri háttar breytingar á Skeytamiðlun sem seljandi telur að muni kalla á slíkar breytingar hjá kaupanda. Að þeim tíma liðnum getur seljandi virkjað viðkomandi breytingar óháð því hvort kaupandi hefur brugðist við eða ekki. Hafi kaupandi þá ekki brugðist við með nægjanlegum hætti til að tryggja nauðsynlega samhæfni við hina breyttu Skeytamiðlun getur seljandi án frekari tafar lokað fyrir aðgang kaupanda að kerfinu að hluta eða að fullu, telji seljandi að umræddur dráttur valdi hættu á truflunum í rekstri þess.

7.      Greiðslur og uppgjör

Kaupandi skal greiða seljanda fyrir aðgang að www.skuffan.is samkvæmt gildandi gjaldkskrá hverju sinni. Fyrir alla aðra þjónustu sem fellur undir samning aðila skal kaupandi greiða seljanda sérstaklega, samkvæmt tímagjaldi seljanda.

Kaupandi skal tilgreina greiðslukort sem skal gjaldfæra fyrir mánaðarlegum gjöldum í samræmi við gjaldskrá hverju sinni .  Fast mánaðargjald er innheimt fyrirfram en notkunargjöld ef einhver eru innheimtast eftir á.

Ef ekki tekst að gjaldfæra á kreditkort útistandandi gjöld á eindaga (það er samanlögð mánaðargjöld og notkunargjöld) öðlast seljandi rétt til að senda kaupanda greiðsluseðil fyrir útistandandi gjöldum. Við slík vanskil reiknast dráttarvextir frá eindaga til greiðsludags . Greiðslu og tilkynningargjald leggst á reikningsupphæð. Þá er seljanda er heimilt að loka fyrir þjónustu til kaupanda 14 dögum eftir að tilkynning um vanefndir hefur verði send honum.

Verð fyrir þær vörur og þjónustu sem samningur um Skeytamiðlun tekur til taka breytingum miðað við almenna verðskrá verksala.

8.      Trúnaður og þagnarskylda

Seljandi, kaupandi og starfsmenn þeirra skulu gæta þagnarskyldu um hvaðeina er þeir verða áskynja í starfi sínu varðandi starfsemi gagnaðila og skylt er eða eðlilegt að leynt fari. Þagnarskylda helst eftir að samningssambandi aðila lýkur.

Aðilar samnings þessa lýsa því yfir og ábyrgjast að þeir og starfsmenn þeirra muni fara með upplýsingar er varða samning þennan og framkvæmd hans sem trúnaðarmál.

Samningur þessi og sá hugbúnaður sem hann tekur til varða mikilvæga viðskiptahagsmuni aðila og upplýsingar um hvorn tveggja eru því trúnaðarmál milli aðila. Kynning á eða umfjöllun um þá af hálfu aðila skal ekki fara fram nema með fyrirfram fengnu skriflegu samþykki beggja aðila.

9.      Gallar, bilanir, ábyrgð og takmörkum ábyrgðar

Kaupandi gerir sér grein fyrir að Skeytamiðlun er ekki villulaus hugbúnaður og að í kerfinu eru eða kunna að vera minniháttar gallar. Slíkir gallar, sem ekki trufla Skeytamiðlun eða virkni þess á alvarlegan hátt eða um verulegan tíma, feli ekki í sér vanefnd af hálfu seljanda á samningi um Skeytamiðlun.

Seljandi ábyrgist gagnvart kaupanda að hafa fulla ráðstöfunarheimild yfir því sem seljandi leggur til samkvæmt samningnum, þ.e. aðgang að Skeytamiðlun og aðra þjónustu sem hann tekur að sér að inna af hendi. Seljandi ber hins vegar enga ábyrgð á göllum eða bilunum, hverju nafni sem slíkt nefnist, í hugbúnaði, vélbúnaði, netkerfum eða öðru sem lögð eru til af kaupanda eða þriðja aðila.

Seljandi ábyrgist að þau skeyti sem flutt eru af kerfinu uppfylli þær kröfur sem gerðar eru til forms skeyta skv. NES (North European Subset). Seljandi ábyrgist hins vegar ekki að skeyti í kerfinu séu efnislega rétt. Vilji kaupandi fá frekari staðfestingu þess að innihald móttekinna skeyta sé rétt, svo sem með því að nota rafræna undirritun skeyta, er honum frjálst að kaupa þá þjónustu sérstaklega, t.d. frá seljanda.

Kaupandi ábyrgist gagnvart seljanda að hann hefur fulla ráðstöfunarheimild yfir þeim rafrænu skeytum sem hann nýtir Skeytamiðlun til að flytja. Kaupandi ber gagnvart seljanda ábyrgð á hverjum þeim afleiðingum sem verða af annarri notkun kaupanda á Skeytamiðlun en þeirri sem er í samræmi við samning þennan og telja verður eðlilega og sanngjarna. Kaupandi skuldbindur sig til að halda seljanda skaðlausum af hverjum þeim kröfum sem beint er að seljanda og tengjast rafrænum skeytum kaupanda sjálfs.

Bótaábyrgð seljanda er bundin því skilyrði að beint og ótvírætt tjón kaupanda megi rekja til mistaka og gáleysis seljanda eða starfsmanna hans. Seljandi ábyrgist ekki tjón kaupanda eða skráðra notenda á þeirra vegum, t.d. viðskiptavina eða starfsmanna, sem verður við það að aðrir en þeir komast yfir aðgang að eða misnota Skeytamiðlun, eða önnur kerfi tengd seljanda, eða upplýsingar í slíkum kerfum. Fjárhæð bóta vegna slíkra mistaka skal takmarkast við beint tjón.

Seljandi ber í engu tilviki ábyrgð á rekstrartapi kaupanda eða öðru afleiddu tjóni hans, þ.m.t. glötuðum ágóða eða ráðgerðum sparnaði, hvort sem tjónið er rakið til galla, skemmda eða eyðileggingar á hinu keypta eða til annarra ástæðna.

Um ábyrgð seljanda sem milligönguaðila i rafrænum viðskiptum gilda ákvæði laga um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu, nú V. kafla laga nr. 30/2002.

Allt að einu takmarkast bótaábyrgð seljanda í sérhverju tilviki ávallt við það verð sem seljanda var greitt fyrir flutning þess rafræna skeytis sem þar um ræðir.

10.   Hugverkaréttindi

Skeytamiðlun, tengd gögn og búnaður sem stafa frá seljanda, í núverandi mynd og þeirri mynd sem kerfið kann að taka á sig í framtíðinni, eru alfarið einkaeign hans að öllu leyti, þar á meðal notkunarleiðbeiningar, kynningar- og kennsluefni, sem og verklag og vinnubrögð, sem kaupanda eða starfsmönnum hans kann að verða kynnt. Seljandi á einn allan hugverkarétt, þar með talinn höfundarrétt, að öllum slíkum gögnum, búnaði og efni. Seljandi veitir kaupanda afmarkað leyfi til notkunar þessa búnaðar eftir því sem nánar er kveðið á um í samningnum og nauðsynlegt er til að framkvæma það sem í honum greinir. Notkunarleyfi þetta fellur að fullu og öllu niður um leið og samningurinn fellur úr gildi.

Með samningi um Skeytamiðlun öðlast kaupandi eða aðrir en seljandi engan höfunda- eða hugverkarétt að Skeytamiðlun eða öðrum hugbúnaði eða hugverkum sem tengist eða kann að tengjast Skeytamiðlun, þar með töldum hverjum þeim séraðlögunum eða sérsmíði sem kann að verða bætt við Skeytamiðlun, hvort sem slíkt verður gert að frumkvæði seljanda eða af öðrum sökum. Hið sama gildir varðandi tengt efni, svo sem leiðbeiningar um notkun, annað kynningar- og kennsluefni, sem og verklag eða vinnubrögð sem starfsmönnum kaupanda verða kynnt.

Í sumum tilvikum kunna að vera aðgangshindranir eða aðrar öryggisráðstafanir í Skeytamiðlun og er kaupanda óheimilt að breyta eða sneiða hjá slíkum hindrunum. Einnig er kaupanda óheimilt að breyta eða eyða upplýsingum frá seljanda er varða réttindi, vörumerki eða annað þess háttar. Ber kaupanda að leita tiltækra leiða til að koma í veg fyrir að starfsmenn hans eða aðrir breyti eða sneiði hjá framangreindum hindrunum eða breyti fyrrgreindum upplýsingum.

11.   Persónuvernd

Kaupandi er ábyrgðaraðili og seljandi vinnsluaðili sérhverra þeirra persónuupplýsinga sem kann að vera að finna í þeim rafrænu skeytum sem kaupandi sendir með aðstoð Skeytamiðlunar.

Samningur þessi gegnir meðal annars hlutverki vinnslusamnings, í skilningi laga 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Er seljanda skylt að vinna þessar upplýsingar eingöngu í samræmi við efni samnings þessa og fyrirmæli kaupanda. Kaupandi ber ábyrgð á því að hafa viðeigandi heimildir, svo sem samþykki hins skráða, til þeirrar vinnslu persónuupplýsinga sem hann kann að fela seljanda á grundvelli samnings þessa. Kaupandi ber ábyrgð á að svara erindum skráðra einstaklinga og fræða þá vegna réttinda þeirra og er seljanda slíkt ekki heimilt.

Seljanda er nauðsynlegt að vinna þær upplýsingar sem finna má í rafrænum skeytum í Skeytamiðlun kerfinu til að gegna hlutverki sínu sem rekstraraðili kerfisins. Þessar upplýsingar eru einkum notaðar til að tryggja rekjanleika færslna og við aðra eðlilega starfsemi tengda Skeytamiðlun.

Við vinnslu upplýsinga í Skeytamiðlun, þar á meðal persónuupplýsinga, er aðgangur takmarkaður við þá starfsmenn seljanda sem hann þurfa starfs síns vegna.

Auk þess er seljanda eðli máls samkvæmt heimilt að miðla upplýsingum í rafrænum skeytum til viðtakenda skeytanna og til vinnsluaðila, svo sem aðila sem gert hafa þjónustusamninga við kaupanda eða seljanda; annarra aðila sem nauðsynlegt er að fái viðkomandi upplýsingar svo kaupandi fái notið þjónustu Skeytamiðlunar; auk aðila sem seljanda er á hverjum tíma skylt að veita upplýsingar á grundvelli laga, dómsúrskurðar eða ákvörðunar þar til bærra yfirvalda.

Seljandi tryggir öryggi persónuupplýsinga með því að leitast við að uppfylla á hverjum tíma lög og reglugerðir sem lúta að persónuvernd og viðhafa þær öryggisráðstafanir sem vísað er til í grein 5 hér að framan.

Seljandi mun tilkynna kaupanda um öryggisbrest án ástæðulauss dráttar eftir að hann verður var við brestinn. Með tilkynningunni skulu fylgja hver þau skjöl eða gögn sem seljandi hefur aðgang að og honum er skylt að afhenda samkvæmt 33. gr. persónuverndarreglugerðarinnar (ESB 2016/679).

Persónuupplýsingar eru einungis varðveittar á meðan á varðveislutíma viðkomandi rafræns skeytis stendur, eins lengi og lög mæla fyrir um eða svo lengi sem málefnaleg ástæða er til, sbr. þó um hámarks vörslutíma í grein 5 hér að framan.

 

12.   Framsal og undirverktaka

Hvorugum samningsaðila er heimilt að framselja réttindi sín eða skyldur samkvæmt samningi um Skeytamiðlun, í heild eða að hluta, nema með fyrirfram fengnu skriflegu samþykki gagnaðila.

Þó er seljanda heimilt að fela öðrum aðila að annast fyrir sína hönd vinnu við einstaka, afmarkaða þætti samnings um Skeytamiðlun. Nýti seljandi þá heimild sína dregur það í engu úr þeirri ábyrgð sem hann ber gagnvart kaupanda samkvæmt samningi um Skeytamiðlun.

 

13.   Samstarf og eignarhald kaupanda

Ef kaupandi sameinast öðrum lögaðila eða starfsemi eða starfssviði hans er breytt þannig að röskun verður á forsendum seljanda fyrir samningi um Skeytamiðlun getur seljandi sagt samningnumupp án frekari skýringa.

14.   Samningstími og breytingar

Samningur um Skeytamiðlun er ótímabundinn og skal gilda þar til annar hvor aðili segir upp samningnum. Gagnkvæmur uppsagnarfrestur er einn mánuður og skal taka gildi næstu mánaðamót eftir að uppsögn berst.

 Ef kaupandi brýtur ákvæði þessa samnings um aðgengi að Skeytamiðlun og sinnir ekki skriflegri aðvörun seljanda hefur seljandi rétt til að svipta hann aðgengi að Skeytamiðlun að 30 dögum liðnum frá því sendingu skriflegrar aðvörunar. Skal sú skriflega aðvörun jafngilda skriflegri uppsögn samningsins. Felist samningsbrotið hins vegar í misnotkun kaupanda á kerfum seljanda, eða ef útgefinn reikningur seljanda til kaupanda er enn ógreiddur 14 dögum eftir að tilkynning um vanefnd hefur verið send, hefur seljandi rétt til að svipta kaupanda fyrirvaralaust aðgengi að Skeytamiðlun og segja þar með upp samningi um Skeytamiðlun án uppsagnarfrests.

Kaupandi ber alla ábyrgð á því tjóni sem hann eða aðrir kunna að verða fyrir vegna fyrrgreindrar sviptingar aðgengis, þar á meðal tjóni sem seljandi hefði að öðrum kosti verið talinn bera ábyrgð á.

Seljandi hefur rétt til að gera einhliða breytingar á samningsskilmálum þessum og skulu slíkar breytingar taka gildi þegar eftir að kaupanda hefur verið tilkynnt um viðkomandi breytingar með póstsendingu á lögheimili kaupanda eða öðrum öruggum hætti.

15.   Óviðráðanlegir atburðir

Hvorugur samningsaðila ber ábyrgð á því tjóni gagnaðila síns sem rakið verður til atvika eða atburða sem þeir hafa ekki eða geta ekki haft stjórn á (force majeure), svo sem vélar- eða hugbúnaðarbilana, truflana í síma- og fjarskiptanetum, rafmagnstruflana, verkfalla, eldsvoða, ófriðar, náttúruhamfara eða annarra sambærilegra atvika.

Nú hafa framangreind atvik eða atburðir staðið samfellt í 30 daga eða lengur og er þá hvorum aðila sem er heimilt að segja samningi um Skeytamiðlun upp án frekari uppsagnarfrests ef viðkomandi atvik eða atburðir koma enn í veg fyrir að samningurinn verði efndur samkvæmt efni sínu og tekur þá uppsögnin gildi þegar við það að slík tilkynning berst gagnaðila.

16.   Lögsaga og varnarþing

Um sérhvern ágreining sem tengist samningi þessum skal fara að íslenskum lögum.

Rísi ágreiningur vegna samnings þessa eða um efni hans skal dómsmál um slíkan ágreining rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

Skilmálar þessir gilda frá og með 01.09.2013.  Gildandi útgáfu þeirra má ávallt finna á vefsíðu Skeytamiðlunar Advania www.skuffan.is.